Örvitinn

Afmæliskaffi án afmælisbarnsins

Breiðholt
Þetta var nú alls ekki svona dramatískt í raunveruleikanum, ég stóðst bara ekki mátið og fiktaði.
Ég rölti í ræktina í morgun í slabbinu. Ótrúlega fallegt veður, hvítur púðursnjór yfir öllu og sólin skein. Fólk var áberandi duglegra við að þrífa í kringum sig í ræktinni, bæði stangir og lóð. En staðan var önnur í sundlauginni í hádeginu, ég verð að segja eins og er, ég skil ekki gamla fólkið í pottunum, vita þau ekki að þau eru í mesta áhættuhópnum?

Ég byrjaði semsagt í kaldari heita pottinum, þar var bara ein kona, en hún var búin að koma sér fyrir þannig að ég þurfti eiginlega að troða mér framhjá henni. Svo fór ég í heitari heita pottinn og kom mér vel fyrir, en áður en ég vissi af var karl búinn að planta sér innan hálfs metra frá mér, svo hann gæti nuddað iljarnar á sér með inntakinu! Ég fór þá í kalda pottinn og var einn í honum í rétt tæpar tvær mínútur, en þá komu þrjár fullorðnar konur í hann! Ég flúði í heitari pottinn, sem þá var tómur.

Þær komu í humátt eftir mér og innan skammst voru sjö komnir í pottinn og áttunda gamalmennið á leið ofan í, hálfur metri milli fólks! Ég flúði.

Meðan ég var í ræktinni fóru stelpurnar með afmælisgjöf og morgunmat til tengdaföður míns sem er 75 ára í dag. Þær knúsuðu ekki afmælisbarnið heldur lögðu pokana við dyrnar og færðu sig svo frá og ræddu við hjónin í Efstaleiti, sem eru bara hress, úr tveggja metra fjarlægð. Við borðuðum köku af því tilefni hér í Bakkaseli. Stelpurnar keyptu þessa vegna þess að hún er eins og amma Stella gerir.

Horfum á útsendingar dagsins. Þó ég sé ekki mesti aðdáandi ríkisstjórnarinnar sé ég ekki betur en að verið sé að gera nokkuð vel, amk reyna það. Er dálítið hissa á neikvæðum viðbrögðum. Eitthvað af því hlýtur að vera misskilningur, annað er bara stjórnarandstöðustælar sem ég hélt að ættu ekki við núna.

Inga María eldaði kvöldmatinn, ég er að þjálfa hana í gerð kjötsósu (ragú) enda spagettí bolognese í uppáhaldi hjá henni.

Kolla keypti sér Animal crossing og dundar sér við að spila hann, með vinkonu sína í vídeóspjalli að spila sama leik. Þær spila saman. Svona er hægt að redda sér.

Skaust í vínbúðina skömmu fyrir lokun, vantaði hvítvín fyrir salvíkjúkling annað kvöld. Keypti aðeins meira en eina hvítvín, svona til að eiga eitthvað með matnum á næstunni.

dagbók
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)