Örvitinn

Af pítsum og brauðum

Gerbrauð
Brauð dagsins.

Ég lofaði því hér um daginn og á twitter að ég myndi setja inn uppskrift að pítsudeigi. Ég er reyndar ekki innan tímaramma en seint er betra en aldrei!

Það ber að hafa í huga að ég er alveg ógurlega latur og hef ekki nennt að búa til og viðhalda súr, ég er semsagt plebbi sem nota þurrger í brauð. Ég er líka svo latur að ég reyni að hafa lítið fyrir deiginu og ef tíminn getur séð um vinnuna frekar en ég, þeim mun betra. Eins og ég sagði, það tekur mig bara sólarhring að gera ágætar pítsur!

Byrjum á brauði dagsins því ég skellti í það í gær og mælti nokkuð nákvæmlega.

Ég byrja alltaf á því að setja ger út í volgt vatn, jafnvel örlítinn sykur með og bíð svo eftir að gerið geri vart við sig (byrji að freyða). Þurrefnin fara saman í skál og er hrært saman. Skelli dass af olíu og vatninu/gerinu ofan í og hræri saman með sleif. Í þessari uppskrift var um 70% vatn á móti hveiti og því varð þetta að kúlu en ef vatnið er meira hræri ég bara saman í "drullu"!

Plast yfir skálina og hún í ísskáp yfir nótt eða lengur. Brauð dagsins leit bara út eins og kúla en pítsadeig sem ég gerði í gær leit svona út.

deig
Deig eftir nótt í ísskáp
Ef ég er að gera pítsur er ég yfirleitt með stærri uppskrift, um 800gr af hveiti. Tek deigið úr ísskáp, hvolfi úr skálinni á borð og skipti því í parta eftir því hve stórar pítsurnar eiga að vera, miða yfirleitt við svona 350gr. Geri kúlur með því að brjóta deigið inn í sig með báðum höndum, pensla með ólífuolíu og læt standa í nokkra klukkutíma í bakka með loki. Á myndinni eru þær komnar á bakka, eftir að þær hafa hefast hafa þær stækkað nógu mikil til að fylla út í hann, klessast jafnvel saman, sem gerir ekker til.
pítsudeig í kúlum
Pítsur komnar í kúlur.

Brauðið tók ég, teygði og braut saman nokkrum sinn og mótað svo, hnoðaði ekki. Lét það standa á borðinu í einn og hálfan tíma undir viskustykki.

Hitaði ofninn í 250° og setti stálpott með loki í ofninn. Þegar brauðið var búið að hefast skellti ég því í sjóðheitan pottinn og hann inn í ofn í 30 mín með loki, þá kemst gufan ekkert í burtu og brauðið gufubakast. Tók lokið af og baka án loks á 230° í 15-20 mínútur að auki. Læt brauðið hvíla í rúman klukkutíma á grind (sbr. fyrstu mynd).

Pítsur
Pítsa frá því í janúar.

Pítsurnar móta ég á borði, gætilega. Ýti niður með lófa í miðjuna, teygi út, hnoða ekki. N.b. ég kann ekkert að kasta pítsudeigi upp í loft, það eru líka bara stælar! Passa að halda lofti í köntunum . Set pítsustein tímanlega í ofninn og hita ofninn í 300°, stundum nota ég kringlótta pítsubökunardiska í staðin fyrir steininn. Baka pítsur þar til þær eru sæmilega brúnar, tekur 3-5 mínútur.

Varðandi álegg, ég nota passata en ekki tilbúna pítsusósu, mozarella ost ef hann er til, annars rifinn ost frá MS og reyni að setja ekki of mikið á hverja pítsu.

matur
Athugasemdir

Laddi - 04/05/20 09:17 #

Prófaði um daginn að kaupa San Marzano tómata í dós frá Mutti (eru til í Krónunni (stundum) og Fjarðarkaupum), maukaði þá með höndunum og setti smá sjávarsalt. Frábært sem pizzasósa! Svo, auðvitað, bara góðan Mozzarella ost ofan á (alls ekki frá MS), baka og svo ferskt basil og smá olía ofaná, besta margherita sem hægt er að hugsa sér!

Matti - 04/05/20 13:02 #

Ég hef notað þetta passata úr Costco og stundum tómatana, líka úr Costco, þá bara hakkaða, geri ekkert meira.

Já, ég vil gjarnan eiga smá lager af þessu tvennu :)

Ingunn - 05/05/20 11:31 #

Ertu með spaða til að koma pizzunum af borðinu og á steininn? Lendi alltaf í vandræðum þar.

Matti - 05/05/20 13:09 #

Hef oft lent í vandræðum með þetta líka :-)

Ég er ekki með spaða en járndisk/plötu frá weber sem kemur í staðin.

Þetta er sérstaklega maus þegar ég er með hátt hlutfall vatns í deiginu, þannig að ein leið er að minnka vatnið.

Er að ná tökum á þessu með nóg af durum hveiti undir pítsunni og á disknum.

Þegar ég gefst alveg upp á því nota ég "gataða" járn-pítsudiska sem eru mjög þægilegir.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)