Örvitinn

Ferðasaga, fyrsti hluti - föstudagur

Hér er sagt frá fyrsta degi Manchester ferðar, degi sem hófst á Leifstöð og endaði á barnum á Hótel Britannia í Manchester klukkan fjögur um nótt. Af stikkorðum koma þessi við sögu [vodka in Red Bull, pint of lager, Gunni í Intrum, pint of bitter, The Comedy Store, funny guy, snillingurinn, no surrender]

Ég og Stefán mágur vorum mættir í Leifsstöð hálf átta um morguninn föstudaginn 23. apríl, áætlaður brottfarartími 09:00. Davíð og kó voru mættir á undan okkur, sátu við borð og drukku öl þegar við mættum. Stefán ætlaði að tékka á því hvort hann gæti tekið mig með sér í hinn víðfræga baksal þar sem vel er gert við íslensku elítuna (ríka fólkið og embættismenn) en Flugleiðir voru búnir að loka salnum þar sem allar áætlunarflugvélar voru farnar skömmu áður. Við fengum okkur því morgunmat í almenna rýminu, samloka og Carlsberg - morgunverður meistara.

Fyndni maðurinn og fyrsti brandari ferðarinnar.
Við Stefán þegar hann var kynntur fyrir hópnum:
"Þekki ég þig ekki, seldi ég þér ekki einu sinni rauða mösdu?"
"Nei, ég hef aldrei átt rauða mösdu" sagði Stefán
"hahahahaha, nei - bara djók. Þú varst ekki heldur búinn að borga hana"
"!"

Þetta var forsmekkurinn af því sem koma skyldi.

Flugið gekk vel, ég er búinn að komast að því að trixið með flugvélamat er að nota saltið og piparinn og þá meina ég, nota það bókstaflega allt. Með hrúgu af svörtum pipar og salti er þetta ekkert svo slæmt þó gumsið bragðist allt nákvæmlega eins. Við vorum heppnir og vorum með autt sæti á milli okkar, höfðum það því ósköp notalegt. Þegar út var komið gengu hlutirnir fljótt fyrir sig og örskömmu eftir að við lentum vorum við komnir í rútu á leið á hótelið. Þar sem ég sat í rútunni og beið eftir að hún færi af stað sá ég snillinginn í fyrsta sinn. Hann sat í skýli við hlið rútunnar, reykti og drakk whisky af stút. Þetta var agalegur smjörkúkur, vel klæddur, sólbrúnn og með strípur. Það sást langar leiðir að þessi var kominn til að skemmta sér. Ég sá hann sem betur fer ekki aftur fyrr en í lok ferðarinnar, nánar um það síðar.

Það tók ekki nema um 20-30 mín að keyra á hótelið. Ágætt hótel, óskaplega vígaleg ljósakróna prýðir móttökuna og miklir stigar liggja upp á efri hæðir. Við settumst við barinn, fengum okkur pænt af lager og tókum þá ákvörðun að fresta ferð til Liverpool borgar. Stebbi var með auka Liverpool treyju sem hann ætlaði að lána mér á leiknum og við ákváðum að taka ferðina til Mecca (Anfield) á mánudeginum þegar við hefðum nægan tíma. Þess í stað röltum við í miðbæinn og ég fór að leita mér að gallabuxum og jakka. Gyða hafði saumað saman klofið á buxunum sem ég fór í út en það fór ekki betur en svo að þær rifnuðu aftur á Leifsstöð. Ég var ekki lengi að þessu og keypti mér ágætar buxur og ansi skemmtilegan jakka í TopMan og borgaði fyrir hundrað og tíu pund, hef ekki hugmynd um hvort það eru góð kaup, en ég kaupi mér aldrei föt. Fengum okkur pæ í verslunarmiðstöðinni og röltum svo áfram. Ég missti því miður af því þegar Gunni í Intrum hringdi í mig - hvað það var nákvæmlega sem fór framhjá honum þegar ég sagði honum að ég yrði ekki á landinu veit ég ekki, sérstaklega þar sem við ræddum allmikið um það við hvern hann gæti talað í staðin - en mér þótti eiginlega frekar leiðinlegt að hafa misst af þessu símtali - auðveldara að vera leiðinlegur þegar maður er staddur í útlöndum og búinn að drekka nokkur pænt.

Á göngu okkur um miðbæinn heyrðum við söng í fjarska og ákváðum að kíkja betur á þetta. Gengum á óminn og komum að torgi þar sem fjöldi fólks hafði safnast saman, meirihlutinn voru snoðaðir karlmenn í enska landsliðsbúningnum. Við veltum því fyrir okkur hvort eitthvað væri að gerast í rúgbí en svo reyndir ekki vera heldur voru Englendingar að halda upp á dag heilags Georgs. Bullurnar á torginu reyndust vera enskir þjóðernissinnar sem sungu ættjarðarlög, baráttusöngva og rasísk kvæði. Meðal textabrota voru, "You can stick that fucking turban up your arse" , "you can stick that fucking islam up your arse", "No surrender to the IRA SCUM" og fleira í þá áttina. Mér til mikillar mæðu límdist IRA lagið í heilann á mér og sat þar það sem eftir var ferðar. Við sátum við torgið í smá tíma, drukkum pænt af bitter og virtum rasistana fyrir okkur. Stebbi féll vel í hópinn enda í enskri landsliðstreyju, einn fasistinn vildi fá hann til að taka undir en áreitti okkur ekkert verulega.

Það var kominn tími til að fara aftur á hótelið því um kvöldið var stefnan sett á The Comedy Store. Þar vorum við búnir að bóka okkur á uppistand. Ætluðum að kíkja á veitingastað á undan en enduðum á því að fá okkur ágætis mat á staðnum áður en uppistandið hófst

Við mig fyrir framan hótelið áður en við lögðum af stað á Comedy Store
"Varstu að kaupa þennan jakka?"
"já, við kíktum í búðir - mig vantaði buxur og jakka"
"hahahaha, nei djók"
"!"

Fyrir showið fengum við okkur í glas og ég smakkaði snilldardrykkinn vokda í Red Bull í fyrsta en ekki síðasta sinn í þessari ferð. Hvílík eðal blanda.

Uppistandið var gargandi snilld, gaurarnir voru hver öðrum fyndnari og fengu ekki slæmt efni til að vinna með þegar hópur íslendinga sat beint fyrir framan sviðið. Kynnirinn var magnaður og tók fyndna manninn í nefið, svo vel að fyndni maðurinn og félagi hans yfirgáfu showið áður en það var búið. Það þótti mér fyndið! Á meðan á showinu stóð drukkum við vodka og red bull eins og okkur væri borgað fyrir það, þó raunin væri náttúrulega önnur enda eyddum við ógnarmiklu fé í áfengi þetta kvöldið. Eftir show fórum við á barinn á sama stað, ræddum við grínistana og hlustum á ansi góða tónlistarmenn sem spiluðu þar. Þvínæst var rölt á hótelið þar sem barinn var opinn fram á nótt. Stebbi ræddi pólitík við einhverja Íra, ég þvaðraði einhvern andskotann við breskt par. Um fjögur fórum við í háttinn.

Fyrstu dagur ferðarinn var helvíti vel heppnaður.

Síðar:
annar hluti - leikurinn
þriðji hluti - Duran Duran
Lokahluti - ferðin á Anfield

dagbók
Athugasemdir

Davíð - 29/04/04 20:22 #

Funny guy....... hehehehehe!