Örvitinn

Ferðasaga, annar hluti - leikurinn

Annar dagur Manchester ferðar hófst í þynnku hjá sumum og endaði með ofáti, ofeyðslu og ofdrykkju. Á milli komst ég í þá mögnuðustu stemmingu sem ég hef á æfinni upplifað á skemmtilegasta fótboltaleik sögunnar, já ég skal segja það aftur, skemmtilegasta fótboltaleik sögunnar. Af stikkorðum koma þessi við sögu: [Danny Murpy, You'll never walk alone, Gary Neville shags his mom, scousers með jónur, nautafille, bökuð sæt kartafla, meira vodka í Red Bull]

Laugardagurinn 24. apríl var stórkostlegur dagur.

Áður:
Ferðasaga, fyrsti hluti - föstudagur

Við vorum komnir á ról rétt um hádegi. Ég skellti mér í sturtu og klæddi mig, var hress og sprækur þrátt fyrir (eða vegna) óheyrilega drykkju kvöldið áður en Stebbi var ansi þreyttur frekar en þunnur, held hann hafi drukkið of mikið Whisky undir lokin. Ég fór í rauða Liverool treyju og svo í svartan síðermabol yfir. Var búinn að heyra margar sögur um vandræðin sem maður gæti lent í ef maður rölti um Manchester borg og þá sérstaklega Old Trafford í röngum litum, sérstaklega ef Liverpool myndi vinna, þannig að allur var varinn góður, Stebbi hafði sína treyju í erminni á jakkanum sínum, sem hann svo hélt á. Fórum á barinn á hótelinu og hittum hópinn, fengum okkur pænt og ræddum atburði gærdagsins - tókum taxa á völlinn klukkan eitt.

Það var slatti af fólki fyrir utan Old Trafford en samt ekkert stappað enda tveir tímar í leik. Lögregluþjónar fyrir utan Old Trafford eftir leikLögreglan var áberandi, lögreglumenn í gulum jökkum út um allt, löggur á hestum og auk þess sérsveitarmenn í bláum göllum. Þegar við röltum að vellinum kom einn bláklæddur að okkur og leitaði á okkur hátt og lágt. Skoðaði veski, myndavél og síma gaumgæfilega, þreifaði okkur svo ítarlega. Eftir að leit var lokið útskýrði hann fyrir okkur af hverju hann hefði leitað á okkur, rétti okkur miða sem útskýrði það nánar og þakkaði okkur. Ég var ánægður með þetta, gott af vita af því að það var almennileg gæsla á staðnum. Við ákváðum að fara snemma inn á völlinn, keyptum okkur leikskrá og fórum að inngangi E30. Þar var aftur leitað á okkur hátt og lágt.

Þegar inn á völlinn var komið keyptum við okkur veitingar, ég fékk mér pæ með karrýfyllingu og vatn. Í stúkuna var kominn reytingur af fólki. Við sátum meðal Liverpool stuðningsmanna, í sætinu fyrir aftan okkur sat vígalegur stuðningsmaður Liverpool sem skellti sér úr að ofan áður en leikur hófst og beraði Liverpool tattooin sín. Rétt hjá okkur sátu kínverskir túristar. Nokkru fyrir leik skellti einn þeirra sér í United treyju en var samstundis stöðvaður af vallarstarfsmanni - kínverjarir voru United stuðningsmenn staddir í Liverpool stúkunni. Annar starfsmaður kom til þeirra skömmu síðar og hélt yfir þeim ræðu, harðbannaði þeim að sýna nokkur viðbrögð, sérstaklega ef United skoraði. Á þessari stundu vonaðist ég til þess að United myndu skora eitt mark (á móti sjö mörkum Liverpool), langaði að sjá hvað gerðist hjá kínverjunum. Stuðningsmenn Liverpool í stúkunni Þegar nær dró leik fjölgaði í stúkunni og hörðustu kopites mættu á svæðið. Klukkutíma fyrir leik voru þeir byrjaðir að syngja og fögnuðu vel þegar Liverpool leikmenn í jakkafötum röltu inn á grasið. Þegar liðin byrjuðu að hita upp var stemmingin komin í góðan gír og Liverpool stuðningsmenn sungu af miklum móð. Ég og Stebbi héldum okkur nokkuð til hlés á þessum tíma, fögnuðum þó okkar mönnum en tókum ekki mikið undir í söngnum til að byrja með, sungum þó af og til, ég hafði oft ekki hugmynd um hvað menn voru að syngja. Þegar leið á leikinn tókum við betur undir og í síðari hálfleik öskruðum við eins og smápíkur á tónleikum. "Gary Neville shags his mom - up the shitter" var sungið ótt og títt enda sá maður ekki í náðinni hjá Kopites, "Liverpool - Liverpool - Liverpool ... etc", "We love Liverpool, we do..." og svo ótal níðvísur um Manchester borg sem ku víst vera full af "shit, shit, shit".

Byrjunarlið Liverpool var óhefðbundið, hægri bakvörðurinn Steve Finnan spilaði hægri kant í þessum leik. Houllier ætlaði sér greinilega að stoppa Ronaldo sem var vafalaust þeirra hættulegasti leikmaður. Gárungarnir vilja meina að þessi leikur hafi verið leiðinlegur. Ég skil ekkert hvað þeir meina, þetta er án vafa skemmtilegasti knattspyrnuleikur sem ég hef á æfi minni upplifað. Djöfulsins rosa stemming. Scouserarnir í stúkunni voru ansi léttir á því og vöfðu sér feitar jónur án þess að fara með það í felur. Sá a.m.k. þrjá gera þetta í kringum mig, þar með talið gaurinn sem var mér á hægri hönd. Lyktin fór ekkert framhjá nokkrum manni.

Í síðari hálfleik mætti Smicer til leiks og bætti spil Liverpool verulega, Smicer er vanmetinn leikmaður. Skömmu síðar fiskaði Gerrard víti og þá ætlaði allt að verða vitlaust í stúkunni. Menn voru margir ansi stressaðir og sumir þorðu ekki að horfa. Ég var nú samt þokkalega bjartsýnn enda er hægt að segja ýmislegt um Danny Murphy en seint verður sagt að hann sé slök vítaskytta - enda afgreiddi hann vítið við mikinn fögnuð. Það ætlaði allt að vera snarklikkað þegar Murphy og félagar í Liverpool liðinu hlupu að horninu þar sem við Liverpool stuðningsmenn vorum.

Super, super Dan
Super, super Dan
Super, super Dan
Super Danny Murphy.

Danny Murphy - mynd stolið af vefsíðu BBC Það sem eftir var leiks var sungið út í eitt, varla stoppað nema rétt til að öskra á leikmenn sem ekki nenntu að hlaupa og halda niðri í sér andanum þegar United ógnaði marki Liverpool. Ekki voru allir jafn áhugasamir og United stuðningsmenn streymdu af vellinum, afskaplega þótti mér það undarlegt því undir lokin sótti United af krafti og ekki var ósennilegt að þeir næðu að jafna. Furðulegt sumt fólk sem fer á knattpyrnuleiki. Síðustu mínútur voru stressandi og gríðarlegur fögnuður braust út þegar dómarinn flautaði leikinn af. Liverpool stuðningsmenn voru ekkert að flýta sér af vellinum, fögnuðu sínum mönnum og sungu í um fimmtán mínútur - ég og Stebbi tókum vel undir - djöfulsins rugl stuð var þetta! :-) You'll never walk alone var sungið, nokkrum sinnum.

Ég fyrir utan Old Trafford eftir leik í Liverpool treyjun innanundirÞað var komið að því að yfirgefa leikvöllinn. Við höfðum heyrt hryllingssögur af því ofbeldi sem stuðningsmenn aðkomuliða yrðu stundum fyrir - sérstaklega ef aðkomuliðið tæki upp á því að sigra. Áttum von á að stuðningsmenn liðanna yrðu aðskyldir fyrir utan vellir og vorum því ekkert að fela treyjurnar strax, gengum svo út og beint í kösina af United stuðngingsmönnum, tókum hringspark á þá alla og duttum svo í það, nei nei, þetta var allt í lagi, löggur á hverju strái og London búarnir voru ekkert að stressa sig (haha, lúmskur United djókur maður). Ákváðum þó að fela treyjurnar eftir skamma stund, ég fór í bolinn yfir treyjuna mína og Stebbi fór úr sinni treyju. Röltum smá hring um svæðið, svosem ekkert spennandi að sjá. Tókum bus aftur í miðbæðinn, það var hrikaleg upplifun. Steykjandi hiti, umferðarteppa og ég klæddur í tvær treyjur, átti afskaplega erfitt með að fara úr treyjunni þarna þar sem við vorum umkringdir bullum (sem eflaust voru nú samt vingjarnleg grey þegar allt kemur til alls). Við komumst á hótelið að lokum, sveittir og sælir. Hvíldum okkur fyrir kvöldið.

Eftir smá lúr og sturtu röltum við niður í miðbæ, höfðum klukkutíma áður en hópurinn ætlaði að hittast og leggja af stað á veitingastað. Fengum okkur smá snarl og settumst á bekk og virtum fyrir okkur menninguna. Nokkrir gaurar spörkuðu bolta í garðinum, fólk rölti með krakkana sína gegnum gosbrunninn og betlarar ... tja, betluðu. Óskaplega mikið útlönd eitthvað!

Funny guy við Stebba á barnum á hótelinu áður en við fórum út að borða
Bendir á skyrtuna hans, "hvað notar konan þín til að þurrka af þegar þú ert að heiman"
"heh"
"fattaðir þú þetta ekki, hvað notar konan þín... strákar, heyrið hvað ég er fyndinn... ég sagði...."
Stebbi við mig "ég fattaði þetta, þótti þetta bara ekkert fyndið"
ég: "aha"

Fórum út að borða á Argentíska steikhúsinu Gaucho. Stebbi sagði mér reyndar að annar hvert Argentískt steikhús utan Argentínu héti þessu nafni, en ég get mælt með Gaucho í Manchester. Ég fékk mér rækjur í forrétt og fillé í aðalrétt. Valdi minnstu steikina og bað um hana hráa. Þetta er eitt besta kjöt sem ég hef smakkað, mikið hrikalega var þetta gott. Pantaði með þessu bakaða sæta kartöflu, það var snilld. Ætla að prófa þetta sjálfur næst þegar ég grilla. Náttúrulega ekkert flókið við þetta, maður bakar sætu kartöfluna bara eins og venjulega kartöflu, skellir svo smjöri, salt og pipar í hana. Með vatnum var drukkið og skrafað. Menn voru mishressir þetta kvöld, sumir voru ekki jafn léttir á rásinni og kvöldið áður en menn hresstust þegar á leið. Þegar kom að því að gera upp gerði ég stór mistök, ég borgaði með korti. Tók semsagt við peningum frá hinum og borgaði fyrir mig og Stebba og það sem upp á vantaði. Að sjálfsögðu vantaði 30 pund sem ég mun aldrei sjá aftur. Það er nefnilega miklu verra að eiga útistandandi 30 pund hjá tíu manns heldur en að einn skuldi manni 55. Hvað er ég að tuða hér um peninga? :-)

Eftir mat var skundað á næturklúbbinn í kjallara hótelsins, en kvöldið áður hafði þar verið strípikeppni sem gömlu mennirnir í hópnum höfðu séð og uppviðrast af. Við röltum frá Gaucho, vorum ekki nema tíu mínútur að ganga þetta - eflaust álíka lengi og við vorum á staðinn með leigubíl. Við mættum á næturklúbbinn graðir í hjarta en auðvitað var ekkert stripl þetta kvöld. Ég drakk vodka í red bull, að sjálfsögðu. Svo fóru menn að leita að einhverju meira fjöri sem endaði náttúrulega í rugli og litlu fjöri. Held menn hafi verið sofnaðir milli þrjú og fjögur, man það samt ekki alveg.

Laugardagurinn 24. apríl var stórkostlegur dagur. Ég segi það og skrifa (aftur), stórkostlegur.

Síðar:
Ferðasaga, þriðji hluti - Duran Duran
Manchesterferð, lokahluti - ferðin á Anfield

dagbók
Athugasemdir

Mummi - 30/04/04 22:20 #

Góð ferðasaga hjá þér, það er aldrei leiðinlegt að sigra scum á Old Toilet....

Davíð - 01/05/04 07:57 #

tja .........

Matti Á. - 01/05/04 12:49 #

tja hvað? Ertu að segja að þetta séu ekki góðar ferðasögur Davíð ;-)

Davíð - 01/05/04 13:43 #

...Jú ferðasagan er frábær.....

En leikurinn....tja.....hmmm!