Örvitinn

Þjónusta og sakamál - arðrænir Spotify?

Siglunes

"Spotify arðrænir tónlistarmenn" skrifar Egill Helgason í athugasemd. Hvernig gerir Spotify það?

Mér hefur stundum þótt fólk misskilja Spotify. Ég kaupi ekki lag þegar ég hlusta á það á Spotify, ég kaupi (ég er með premimum áskrift) spilun. Ef það er hlustað milljón sinnum á lag á Spotify jafngildir það því að milljón einstaklingar heyri lagið einu sinni í útvarpi. Ef ég hætti að nota Spotify hef ég ekki lengur aðgang að tónlistinni, ég get ekki lánað tónlistina, tekið hana með mér eða selt í Kolaportinu (löglega).

Hvort ætli tónlistarmenn fái meira fyrir eina slíka spilun í útvarpi eða milljón hlustanir á Spotify? Ég hef reyndar ekki hugmynd, en það er rugl að bera Spotify saman við sölu á plötu eða geisladisk.

Að kaupa eða kaupa ekki

Annars fórum við hjónin í Skífuna í Kringlunni á föstudag og ætluðum að kaupa vinsæla breska plötu (á geisladisk). Hún var ekki til nema á vínil og við eigum ekki plötuspilara. Platan er ekki til á tónlist.is og við megum ekki kaupa hana á Amazon eða hjá iTunes. Þessi tiltekna plata er ekki heldur á Spotify.

Hvar ætli platan sé til í góðum gæðum og hægt að sækja með litlum fyrirvara? Jú, auðvitað á torrent síðum.

Þetta er þjónustuvandamál.

Ósönn íslensk sakamál

Framleiðendur sjónvarpsþáttanna Sönn íslensk sakamál halda því fram að það sé ekki hægt að framleiða slíka þætti hér útaf því að fólk steli þeim. Enn og aftur, hvernig er þjónustan? Hvar get ég keypt þessa þætti? Ég get keypt áskrift að sjónvarpsstöð sem ég hef lítinn sem engan áhuga á. Get ég keypt þættina á netinu eða streymt? Hvað kostar það? Getur verið að það kosti mig jafn mikið að horfa rafrænt á þættina einu sinni og það myndi kosta að kaupa DVD pakka sem ég gæti horft á aftur og aftur og svo jafnvel lánað vinum og ættingjum eða selt (löglega) í Kolaportinu?

Ég hef reyndar aldrei séð Sönn íslensk sakamál. Er ekki skortur á áhugaverðum sönnum sakamálum á Íslandi? Varla er hægt að halda endalaust áfram með svona sjónvarpsþáttaröð.

tónlist
Athugasemdir

Þórhallur Helgason - 11/08/14 11:20 #

Langaði svo innilega að svara Agli þegar ég sá þetta comment frá honum en hreinlega bara nennti því ekki. Pínu Heimis Fjeldsted taktur í þessu comment-i hjá honum, kasta fram einhverju án alls rökstuðnings...

En já, er algjörlega sammála þér, þetta er 100% þjónustuvandamál því að það að 20þ manns séu með "löglegan" aðgang að NetFlix hlýtur að þýða það að sömu aðilar væru tilbúnir að borga fyrir samskonar þjónustu ef hún væri í boði á Íslandi. Ætla meira að segja að fullyrða að fólk myndi borga meira fyrir ef hún væri íslensk og byði upp á íslenskt efni. Er til efs að Skjárinn sé með fleiri borgandi viðskiptavini...

Matti - 11/08/14 13:17 #

Nokkrar athugasemdir á Facebook

Ásgeir

Sönn íslensk sakamál voru reyndar mjög góðir þættir, en já, þetta er rétt: Hver myndi gerast áskrifandi að sjónvarpsstöð í dag til að sjá eina þáttaröð? Hugmyndin er gjörsamlega fjarstæðukennd í dag.

Ég

Það sem ég átti við með skortinn á áhugaverðum sönnum sakamálum var hvort svona seríur gætu haldið áfram endalaust. Er ekki búið að fjalla um tugi sakamál nú þegar?

Hjörtur

Ég sit við tölvuna mína og vil horfa á Svartur á leik heima hjá mér eftir 5 mínútur. Hvernig geri ég það löglega?

Ef það er ekki hægt (sem mig grunar að sé staðan) þrátt fyrir greiðsluvilja en það er ekkert mál að græja þetta ólöglega þá liggur ljóst fyrir að þetta er þjónustuvandamál.

Þetta er á pari við að veitingastaðir færu í mál við staði sem senda heim því þeir tapa í samkeppninni í umhverfi þar sem fólk nennir ekki að sækja sjálft. Þetta er augljóslega leti og viljaleysi að aðlagast nýjum raunveruleika.

Siggeir

Hjörtur ef þú ert með aðgang að VOD eru ágætis líkur á að þú getir horft á myndina heima hjá þér innan 30 sekúndna eða svo. En það kostar reyndar álíka mikið og mánaðar áskrift að Netflix og litlar líkur á að þú fáir hana í HD

Karl

Ég er borgandi áskrifandi að HBO, Netflix og Spotify. Það er samt fullt af efni sem ég get ekki komist í löglega (nema mögulega löngu eftir frumsýningu í gegnum að kaupa mér Region 1 DVD og allar græjur sem þarf til að spila hann og mig langar bara ekki í neinn asnalegan DVD disk).

Þetta er sannarlega þjónustuvandamál því ég er Fry-stellingunni öskrandi „shut up and take my money!“