Örvitinn

Fimmtán hundruð dagar

línurit sem sýnir þyngd
Þyngdarþróun síðustu fimmhundruð daga.
Þá er ég búinn að halda matardagbók (og hreyfingar) í 1500 daga. Eins og sjá má á grafinu hefur þróunin ekki verið í rétta átt síðustu 500 daga, þyngdin mjakast upp á við.

Hvað veldur? Það er ekki flókið, ég hef verið kærulaus og borðað of mikið að staðaldri. Þetta snýst nær eingöngu um mataræði. Þegar ég sukka (fer í frí, drekk bjór yfir HM glápi, borða sælgæti), þá þyngist ég. Þegar ég passa hvað ég borða, sleppi sælgæti og bjór, þá léttist ég. Ég skipti um vinnu í september á síðasta ári, sýnist það hafa þýtt fimm kg upp á við! Breytt mataræði í hádeginu hefur áhrif!

Ég léttist (næstum) ekki neitt af því að hreyfa mig en ég styrkist og kemst í betra form.

Hef verið að taka mig taki síðustu daga, borða ekki of mikið, sleppi bjór, reyni að innbyrða nóg prótín til að missa ekki of mikinn vöðvamassa og er að léttast nokkuð hratt. Þarf bara að halda þessu róli næstu vikur. Hrökkbrauð, skyr, harðfiskur, prótínstangir, ávextir, salat. Svo bara sitt lítið af hverju.

Komst annars að því, þegar ég byrjaði að skera niður eftir sumarfrí, að mér finnst þetta ekkert mál. Hélt það yrði erfitt að borða miklu minna en í raun er það ekkert mál. Það er iðulega pláss fyrir auka hitaeiningar á kvöldin og ég vil ekki borða of lítið (langt undir 17-1800 á dag).

Ég horfi svo ekki bara á vigtina, er líka búinn að draga fram skyrtu sem er örlítið of lítil og máta hana reglulega. Þegar hún passar nógu vel dreg ég næstu skyrtu fram.

hitaeiningar
Myfitnesspal er í rugli og sýnir ekki síðustu 90 daga, en þarna eru hitaeingar síðustu 60 daga. Það segir sig sjálft að ég bætti á mig meðan ég borðaði of mikið!
Hef ekki hlaupið mikið þetta ár, búinn að vera aumur í fótum sem ég tengi við þyngdaraukningu. Undanfarinn mánuð verkjar mig neðst í hásin eftir boltann. Ég er langt frá því núna að hlaupa 12km undir klukkutíma en ég er sterkari en ég hef verið og markmiðið er að missa ekki of mikinn styrk á sama tíma og ég léttist um 10-15kg.

heilsa
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)