Örvitinn

Þúsund dagar

Þyngdargraf
Þyngdarþróun síðustu þúsund daga

Dagurinn í dag er númer þúsund, þ.e. ég er búinn að halda matardagbók í þúsund daga án þess að missa úr dag. Þróunin sést á grafinu, þyngdin náði lágmarki sumarið 2015 og fór frá haustinu það ár hægt og rólega upp á við, þar til núna í janúar að ég sneri þróuninni aftur við.

Léttastur var ég um 77 kíló, fór hægt og rólega upp í 87kg í janúar á þessu ári. Núna rétt rúmlega 83.

Af hverju þyngdist ég? Svarið er einfalt, ég slakaði á, leyfði mér að borða meira að jafnaði og sukkaði oftar. Stærstu þyngdarsveiflur eru í kringum sumarfrí og hátíðir. Það er ekkert leyndarmál að það er erfitt fyrir fólk sem léttist mikið (og hratt) að halda þyngdartapi. Rannsóknir sýna að það hægist á líkamsbrennslu í einhvern tíma og þegar fólk slakar á í mataræði er hætt við að kílóin hrannist upp. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir mig að fylgjast vel með þróuninni, bæði varðandi þyngd og mataræði.

Hvernig léttist ég aftur? Svarið er jafn einfalt. Ég borða aðeins minna, hreyfi mig meira! Þetta snýst næstum alfarið um mataræði. Ég er ekkert mjög stífur varðandi mataræði, miða við rúmlega 1800k kaloríur á dag og reyni að innbyrða 2gr af próteini fyrir hvert kíló af líkamsþyngd. Ég finn ansi vel að það hefur áhrif í lyftingunum. Ég er ekki í stífu átaki, leyfi mér ýmislegt, en er meðvitaður um það sem ég er að gera.

kaloríur
Hitaeiningar sem ég hef innbyrt síðustu 90 daga

Hreyfing

Ég hef verið duglegur við að hreyfa mig á þessu ári, þrátt fyrir að meiðsli hafi haldið mér frá fótboltanum. Í byrjun árs tognaði ég framan á vinstra læri og eftir mánaðar pásu tognaði ég aftur í fyrsta tíma. Nú er ég aftur búinn að hvíla boltann í rúman mánuð og sé til í næstu viku hvort ég læt reyna á fótinn. Í staðin hef ég verið duglegur að fara í ræktina og hlaupa á bretti og er búinn að ná að bæta mig töluvert í hlaupum.

Hreyfing, mínútur á dag
Hreyfing, mínútur á dag

Fyrir þessa törn var það lengsta sem ég hafði hlaupið um níu kílómetrar. Þá komu eymsli í hásin í veg fyrir að ég bætti mig, eftir hvert hlaup var ég að drepast í fætinum. Nú er staðan skárri og ég hef hægt og rólega verið að lengja hlaup og auka hraða. Hleyp nú reglulega tólf kílómetra á tæpum klukkutíma.

hlaup gærdagsins
Hlaup gærdagsins.

Ég hef líka verið duglegur að lyfta og setti mér markmið að taka hundrað í bekk. Það er komið og ríflega það, tek hundrað fimm sinnum í röð á góðum degi. Hef tekið 105 en ekki enn náð 110 kílóum. Miðað við að ég næ að lyfta 100kg fimm sinnum ætti 110kg að steinliggja. Eitthvað af þyngdaraukningu minni síðasta árið er í vöðvamassa, en það væri sjálfsblekking að halda að það væri stór partur.

Markmið

Þetta er einfalt, ég ætla aftur undir 80kg og halda mér þar. Ætla að lyfta 110kg í bekk, taka tíu upphífingar aftur (hef misst það niður í fimm, það er einfaldlega miklu erfiðara að toga þessa þyngd upp) og hlaupa tíu kílómetra úti undir 50 mínútum. Semsagt, hlaupa meira, lyfta meiru, vera í góðu formi.

Ég ætla einnig að reyna að gera allt sem ég get til að halda skrokknum og hausnum í lagi, vera duglegur að mæta í ræktina og halda dagbók yfir mataræði og hreyfingu í þúsund daga í viðbót. Sé til með framhaldið eftir það. Svo þarf ég líka að minna sjálfan mig reglulega á hver staðan var fyrir þúsund dögum.

heilsa
Athugasemdir

Matti - 29/03/17 09:45 #

Það er skemmtileg tilviljun að áskriftin mín í World Class rennur út á morgun. Dagur þúsund síðasti dagurinn sem núverandi samningur gildir.

Ég framlengi um annað ár á morgun.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)