Örvitinn

Fagna þeir?

Nú borgum við Icesave einfaldlega, ekkert múður. Andstæðingar Icesave samninga geta eignað sér heiðurinn af því að kominn er mun hagstæðari samningur en áður. Til hamingju. Þetta gátuð þið. Þið getið fagnað.

En við þurfum að borga, það kemur ekkert annað til greina og hefur ekki komið til greina lengi. Eignir þrotabús Landsbankans duga fyrir langstærstum hluta skuldarinnar og samningurinn virðist afskaplega hagstæður.

Kostnaður við þetta verður í mesta lagi álíka mikill og kostnaður við að reka ríkiskirkju í tíu ár. Er þar ekki komin fín lausn á málinu?

Já, við þurfum að borga. Kosningarnar snerust ekkert um það. Ég er náttúrulega bara landráðamaður :-)

(við skulum ekkert spá í hvað það hefur kostað þjóðarbúið að hafa ekki fyrir löngu afgreitt þetta mál)

Icesave
Athugasemdir

Jóhannes Laxdal - 09/12/10 21:12 #

Ef valið stæði á milli þess að borga prestaklámið í 10 ár eða þessar skaðabætur þá væri valið auðvelt :) En það stendur ekki til boða. Það sem stendur til boða samkvæmt fréttum er að skuldsetja ríkissjóð til 40 ára á ansi hæpnum forsendum til viðbótar 1200 milljón dala gjaldeyrisláninu frá AGS. Hvað heldur þú að það taki mörg hundruð ár að framleiða fyrir þessum gjaldeyrisskuldbindingum? Þeir sem tala eins og þetta sé pís of keik eru sannir örvitar

Matti - 09/12/10 21:15 #

En það stendur ekki til boða.

Víst stendur það til boða. Við getum ákveðið að hætta að borga fyrir ríkiskirkju á morgun ef pólitískur vilji er fyrir því.

En það stendur ekki til boða. Það sem stendur til boða samkvæmt fréttum er að skuldsetja ríkissjóð til 40 ára á ansi hæpnum forsendum

30 ár (ekki 40) eru hámarkstími sem miðar við að ósköp lítið fáið fyrir eignir gamla Landsbankans. Eignir sem nú þegar standa undir meira en 90% af Icesave skuldinni. 30 ár eru ekkert inni í myndinni í raun.

Þeir sem tala eins og þetta sé pís of keik eru sannir örvitar

Æi, ekki vera bjáni. Kynntu þér málið fyrst, tjáðu þig svo.

Svenni - 10/12/10 00:09 #

Ég man þegar við þurftum að borga þetta fyrir ári síðan.

Geisp.

Matti - 10/12/10 00:13 #

Og allt hefur gengið svona líka glimrandi vel á Íslandi síðasta árið :-)

Haukur - 10/12/10 00:41 #

við skulum ekkert spá í hvað það hefur kostað þjóðarbúið að hafa ekki fyrir löngu afgreitt þetta mál

Jújú, við skulum alveg spá í það - ert þú með eitthvert mat á þeim kostnaði? Er það hærra eða lægra en 100 milljarðar?

Matti - 10/12/10 00:47 #

Hvernig ætti ég að vita það?

Annars gleyma flestir endurskoðunarákvæði fyrri samnings. Ég er sannfærður um að við hefðum aldrei greitt hann að fullu.

Haukur - 10/12/10 01:17 #

Hvernig ætti ég að vita það?

Þú hljómaðir eins og þú hefðir a.m.k. velt þessu eitthvað fyrir þér. Ég hef hvergi séð bent á nein konkret dæmi um skaða af því að samþykkja ekki fyrri samning - en ég hef heldur ekki lesið fréttir mjög stíft. Ef þú veist um einhver slík dæmi væri fróðlegt að sjá þau.

Varðandi endurskoðun á samningi. Mér fannst það alltaf vera óskhyggjuleiðin í málinu að samþykkja ógnvænlegan samning en treysta á að við þyrftum ekki á endanum að standa við hann. Mér sýndist þá að betri kostur væri að hafna samningnun og þess vegna skrifaði ég undir áskorun til forsetans þess efnis og greiddi síðan atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni í samræmi við það.

En núna gæti verið besti leikurinn í stöðunni að samþykkja nýja samninginn. Ef við hugsum okkur að við borgum 1 krónu með nýja samningnum, 10 krónur með töpuðu dómsmáli og 0 krónur með unnu dómsmáli þá þyrftum við að eiga meira en 90% líkur á að vinna málið til að áhættan borgaði sig.

Baldvin - 10/12/10 06:45 #

Lausnin komin þarna Matti. Alveg magnað þetta lið sem heldur að við getum bara sagt hundsað þessar ábyrgðir. Íslenska ríkið gerði upp á milli viðskiptavina Landsbankans og þarf einfaldlega að borga fyrir það.

Haukur - 10/12/10 09:07 #

Mér fannst Bucheit reyndar orða hlutina dálítið einkennilega í Kastljósinu þar sem hann sagði að eftir að Icesave-innistæðueigendur fengu sitt greitt út hafi aðeins tveir aðilar máls staðið eftir til að axla byrðina - íslenska ríkið annars vegar og hollenska og breska ríkið hins vegar. Þeir sem í raun bera skaðann, fyrir utan íslenska ríkið, eru aðrir kröfuhafar í Landsbankann enda eru þeir skiljanlega ekki hressir.

Matti - 10/12/10 10:07 #

Tja, kostnaður af því að hafa ekki samþykkt Icesave er náttúrulega afar óljós, en ég hef skilið það þannig að við höfum verið að greiða hærra vaxtaálag og ekki getað endurfjármagnað útaf því.

Ég er nokkuð viss um að við fáum betri samning núna vegna þess að nú er þetta ekki pólitískt mál í Hollandi og Bretlandi, kosningar eru liðnar. Þess vegna má vera að það hafi verið óskhyggja í mér að halda að endurskoðunarákvæðin myndu alltaf koma til - vegna þess að þá væru menn ekki í bullandi pólitík þarna úti á meðan - en jú, vissulega var þetta dálítil óskhyggja.

Gunnar G - 10/12/10 10:55 #

Það er algerlega öruggt að tjónið af því að ganga ekki frá IceSave í október 2008 er risastórt.

lítill angi af því eru mörg fyrirtæki sem hafa misst viðskipti sín erlendis vegna þess að þau eru íslensk, íslensk stórfyrirtæki hafa ekki getað leyst út tæki og búnað til reksturs og framleiðslu hér, o.s.frv.

Svo ekki sé talað um tapaðan hagvöxt.

Dómsdagsspár JS og SJS hafa nefnilega ræst að einhverju leyti, en einhvern veginn ekki ratað í fjölmiðla..... Þetta hef ég séð með eigin augum síendurtekið frá október 2008.

Haukur - 10/12/10 12:30 #

Það er nú ekki eins og íslensk stjórnvöld hafi ekki sýnt samningsvilja í málinu. Strax 11. október 2008 var tilkynnt að samkomulag hefði náðst við Hollendinga og samningar við Breta væru langt komnir. Síðan fengum við nýja ríkisstjórn, kosningar, nýtt þing o.s.frv en á þeim tveimur árum sem liðin eru hafa íslenskar ríkisstjórnir aldrei gefið annað í skyn en að þau muni semja um málið og séu tilbúin að taka á sig verulegar skuldbindingar til að ljúka því.

Það er ekki hægt að sjá neitt samhengi milli þess að Icesave-samningum sé hafnað/frestað og að skuldatryggingaálag íslenska ríkisins versni, sbr. þetta graf. Ef eitthvað er virðist sambandið frekar vera í hina áttina.

Það efast enginn um að íslensk fyrirtæki hafi átt erfitt uppdráttar erlendis, sérstaklega strax eftir hrun, en spurningin er hvort þau hefðu virkilega átt hægara um vik ef ríkisstjórnin, Alþingi og forsetinn hefðu samþykkt einhvern samning dauðans í október 2008. Hefði það eflt traust á Íslandi að skrifa undir samning sem óvissa væri um hvort gerlegt væri fyrir ríkið að standa við? Hvernig ætli stemningin hefði verið í þjóðfélaginu ef samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði klárað þetta allt í október 2008? Hefðu síðan ef til vill verið kosnir til valda menn sem teldu sig óbundna af slíku samkomulagi?

Matti - 10/12/10 15:45 #

Áhugavert graf.

Haukur - 10/12/10 16:24 #

Já. Framsetningin er samt auðvitað ekki hlutlaus - það er ýmislegt annað sem væri hægt að miða við en hvenær Þórólfur hefur sagt eitt eða annað.

Hér er nýlegra graf sem sýnir hvernig Ísland hefur verið á nokkuð góðri siglingu 2010 meðan PIGS-löndin taka fram úr okkur eitt af öðru.

Svenni - 10/12/10 16:58 #

"en ég hef skilið það þannig að við höfum verið að greiða hærra vaxtaálag og ekki getað endurfjármagnað útaf því."

Frekar óljóst. Pínu trúarbragur á þessu verð ég að segja :)

Matti - 10/12/10 17:16 #

Ef það væri trúarbragur af þessu, þá væri þetta varla óljóst. Trú snýst um sannfæringu, ég er einmitt ekki að lýsa sannfæringu hér.

Svenni - 10/12/10 18:08 #

Ok.

En þú ert að lýsa yfir vilja til að halda í ákveðna afstöðu án þess að vita mikið um forsendurnar :).

Karl Biskup yrði stoltur.

Matti - 10/12/10 18:12 #

Óskaplega ertu fyndinn.

Svenni - 10/12/10 20:32 #

Takk.

Ég get líka sleppt fyndninni ef menn sleppa því að snúa út úr :)

Matti - 10/12/10 20:57 #

Þú getur líka sleppt því að lesa þessa síðu :-) Mér sýnist nær allar athugasemdir þínar hér vera við færslur um Icesave.

Svenni - 10/12/10 21:05 #

Þú getur líka læst henni og gefið þeim sem eru sammála þér lykilorð.

Matti - 10/12/10 21:06 #

Ég er ekki vanur að loka á fólk.

Aftur á móti leiðast mér óskaplega svona ódýrir stælar eins og þetta rugl þitt um trúarbrögð.

Svenni - 10/12/10 21:26 #

Mér finnst bara gaman að bera saman kröfurnar sem þú gerir til sjálfs þín í þessum umræðum og þær hörðu rökfræðilegu kröfur sem þú gerir til andstæðinga þinna í trúardeilunum sem eru fyrirfram unnar.

Vitsmunalegur óheiðarleiki, valkvæm hugsun, hugtakaruglingur og hvað þetta allt heitir.

Matti - 10/12/10 21:36 #

Jæja, komdu þá bara með það. Færðu bara rök fyrir þessum dylgjum þínum.

En þú ert að lýsa yfir vilja til að halda í ákveðna afstöðu án þess að vita mikið um forsendurnar :).

Ég er að lýsa yfir ákveðinni afstöðu. Ég veit ýmislegt um forsendurnar - en ekki allt.

Ef þú sýnir mér fram á að ég hafi rangt fyrir mér er ég tilbúinn að endurskoða afstöðu mína.

Hvað með þig? Mér sýnist á þessu þvaðri þínu um minnisblaðið að þú sért afar langt frá því að vilja skilja nokkuð annað en þína skoðun á þessu máli.